139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður bendir allt til þess að akkúrat þetta sé tilfellið, að hæstv. forsætisráðherra vilji nota sjávarútvegsmálin til að beina athyglinni frá vandræðagangi ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum. Og þar er því miður af nógu að taka.

Þetta er reyndar gamalt og þekkt ráð hjá ríkisstjórnum í vanda en þó sérstaklega hjá ríkisstjórnum sem starfa í ólýðræðislegum ríkjum, til að mynda kommúnistastjórnum, að finna sér óvini og dreifa athyglinni frá sífellt versnandi lífskjörum almennings með því að hamra á því að það séu einhverjir illir óvinir sem stjórnvöld þurfi umfram allt að berjast gegn til að áhyggjur almennings snúist fyrst og fremst um þessa ímynduðu grýlu en ekki vangetu ríkisstjórnarinnar til að leysa grundvallarmál eins og efnahagsstöðu heimilanna.