139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta. Hæstv. forsætisráðherra er fyrst og fremst að spila pólitíska leiki. Það er mjög sérkennilegt að hæstv. forsætisráðherra taki ekki þátt í efnislegri umræðu og svari ákveðnum spurningum. Það er kannski vegna þekkingarleysis hæstv. forsætisráðherra á þessu máli sem hún treystir sér ekki til þess. Nú er þessi umræða búin að standa hér í tvo daga, þetta er þriðji dagurinn og hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að taka þátt í umræðunni eða sitja undir einni einustu ræðu.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur heldur ekki séð sér fært að gera það. Það er mjög sérkennilegt í ljósi umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið, það er alveg hreint með ólíkindum. Þetta mál kristallast þannig að mesti ágreiningurinn er hugsanlega innan ríkisstjórnarflokkanna sjálfra.

Hv. þingmaður kom inn á það líka í ræðu sinni að þetta mál kom hingað inn tveimur mánuðum eftir að frestur rann út til að taka mál á dagskrá. Ég minni á að stjórnarmeirihlutinn er búinn að hafa málið síðan í september á síðasta ári. Það er eins og óvitar hafi verið að leika sér með eldspýtur miðað við hvernig fyrir þessum málum er komið. Þetta er afraksturinn og það er engin sátt.

Ég minnist þess þegar ég sé hér hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ég held að hann hafi byrjað að tala um það einhvern tímann í janúar eða febrúar að málið væri alveg að klárast og kæmi í næstu viku og næstu viku og næstu viku. Þegar það loksins kom inn tveimur mánuðum of seint var það algjörlega óklárað. Maður hefur séð það hér í ræðum þeirra örfáu stjórnarþingmanna sem hafa tekið til máls og í andsvörum að þeir hafa efnislega mjög mikla fyrirvara við málið eins og það er. Maður áttar sig ekkert á því hvort það er nokkur meiri hluti fyrir málinu, sem ég tel reyndar ekki fyrir því óbreyttu, hvorugu frumvarpinu. Þetta lýsir kannski öllum vinnubrögðunum (Forseti hringir.) sem þessi hæstv. ríkisstjórn stundar í öllum málum.