139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska forseta til hamingju með uppstigningardaginn sem við höldum hátíðlegan til minningar um himnaför frelsarans. Hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þakka ég fyrir ágæta ræðu. Ég vil beina til hans nokkrum spurningum, en ég ætla að byrja á því að segja að ósköp hlýtur hæstv. sjávarútvegsráðherra að hafa liðið illa undir ræðu hv. þingmanns sem færði fyrir því rök að arðsemi sjávarútvegsins mundi líða mikið fyrir þessi frumvörp.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það ekki alveg á hreinu að arðsemi sjávarútvegskerfisins heldur uppi lífskjörum á Íslandi og lífskjörin á Íslandi gera okkur kleift að halda úti mjög öflugu velferðarkerfi? Það hefur reyndar beðið ákveðið skipbrot núna undanfarið eða látið á sjá, en forsenda þess er einmitt mjög arðbært atvinnulíf, (Forseti hringir.) þar á meðal sjávarútvegur.