139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stefna framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í sjávarútvegsmálum er ólík á margan hátt. Það er svo sem eðlilegt að flokkar hafi ólíka stefnu í svona grundvallarmáli. Stjórnmálaflokkar eru einmitt til þess að ólík sjónarmið geti tekist á. Vandinn er hins vegar sá að eins og þetta frumvarp er lagt fram höfum ekki haft aðstæður til að ræða ólíkar lausnir, ólíkar nálganir, ólíkar leiðir til að finna bestu mögulegu niðurstöðu um hvernig megi bæta kerfið.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að ef ríkisstjórnin hefði raunverulegan vilja til að ná sátt um þetta mál, raunverulegan vilja til að skoða rök, jafnvel meta hagræn áhrif breytinga, mætti ná að hanna í fyrsta lagi miklu betra frumvarp og jafnvel tillögur sem allir flokkar á Alþingi gætu sæst á? Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að undanfarna mánuði hefur farið fram ótrúlega mikil vinna við að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu, menn hafa velt fyrir sér rökum, kostum og göllum ólíkra leiða, gefið eftir í sumum tilvikum en voru langt komnir með að ná sátt.

Allt í einu koma svo þessi frumvörp eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Með öðrum orðum, ef menn hyrfu alveg frá þessari nálgun en reyndu þess í stað að sættast, sætta ólík sjónarmið, telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) raunhæft að ná víðtækri sátt um sjávarútveg á Íslandi?