139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Jæja, er eitthvað að frétta? spyr maður. Ég er einfaldlega þingmaður í þessum sal, klukkan er að verða eitt og þá vil ég gjarnan fá fregnir í fyrsta lagi af fundum þingflokksformanna. Eins og ég gat um áðan og við vitum á ekki að gera hlé á þingfundum fyrr en niðurstaða af fundi þingflokksformanna liggur fyrir. Það getur vel verið að niðurstaða liggi ekki fyrir fyrr en klukkan sex. Ætla menn að halda engu að síður áfram með þennan þingfund?

Ef menn ætla að gera það krefst ég þess enn og aftur að við köllum til forustumenn ríkisstjórnarflokkanna. Það gengur ekki lengur að við getum ekki haldið uppi eðlilegum umræðum um álitaefni sem m.a. eru á milli ríkisstjórnarflokkanna og koma berlega fram í þeim plöggum sem við erum að ræða um. Ég er m.a. að skírskota til umsagnar fjárlagaskrifstofunnar frá fjármálaráðuneytinu.

Ég spyr fregna, hæstv. forseti. Hvað líður þingflokksformannafundi (Forseti hringir.) og hvað líður því þá að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra komi á fund okkar þingmanna?