139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ekki skal ég kvarta undan vinnuálagi en ég þarf að mæta á þennan nefndarfund í fyrramálið klukkan níu og ég ætlaði að undirbúa mig pínulítið, þetta eru nokkuð stór mál sem þar er um að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir að ég verði með á þeim, enda er ágreiningur um þau um allt þjóðfélagið og meira að segja þeir aðilar sem um ræðir, aðilar vinnumarkaðarins, gagnrýna frumvörpin sem eiga að byggja á kjarasamningunum.

En mig langar til að frétta af því hvað er að gerast hérna á hinu háa Alþingi, hvort þingflokksformenn hafi lokið viðræðum sínum, hvort stjórnarliðar hafi náð samstöðu í því hvert þeir ætla að stefna með þessum frumvörpum því að mér finnst enn þá skorta á það.

Reyndar bíð ég spenntur eftir ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra því að hann mun væntanlega upplýsa okkur um það hvert hann ætlar að stefna, segjum til tveggja ára, fimm ára, tíu ára, fimmtíu ára.