139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, það eru ekki bara stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Hreyfingin, sem hafa ýmislegt við þessi mál að athuga. Þeir stjórnarliðar sem á annað borð hafa tjáð sig um þau hafa margir, líklega flestir hverjir, gert við þau verulegar athugasemdir. Auðvitað vekur það furðu þegar ríkisstjórn leggur fram frumvarp sem í fyrsta lagi er engin víðtæk sátt um, en ekki einu sinni sátt í stjórnarliðinu sjálfu. Það bætist við þann ótrúlega málatilbúnað allan sem hefur verið í kringum það hvernig þessi mál komu inn í þingið og þá getur maður ekki annað en ályktað að þessi mál og framlagning þeirra nú snúist um eitthvað allt annað en raunverulegan vilja til að gera þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem þar er lýst, enda hlytu menn þá að hafa byrjað á því að afla fylgis við þær breytingar innan stjórnarliðsins, ná meiri hluta í þinginu fyrir þeim.

Nei, líklega snýst þetta fyrst og fremst um pólitíska spunaleiki, að geta dreift athyglinni frá endalausum vandræðagangi ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum og látið umræðuna snúast dálitla stund um sjávarútvegsmálin svoleiðis að hæstv. forsætisráðherra geti haldið áfram að endurnýta frasa sína um sjávarútveg, uppnefna menn og berja sér á brjóst sem einhvers konar fulltrúa sanngirni í þessum umdeildu málum þegar augljóst er að frumvörpin sem lögð eru fram hafa ósköp lítið með sanngirni að gera.