139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum umræðu um frumvarpið um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem hefur verið rætt mjög ítarlega. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið efnismikil og víða hefur verið komið við í einum mikilvægasta atvinnuvegi þjóðarinnar sem er sjávarútvegurinn.

Þó svo að til umræðu hafi einungis verið þetta frumvarp, eins og ég sagði, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, hafa ræðumenn líka komið nokkuð inn á annað sem ekki er búið að mæla fyrir en er frumvarp að nýjum heildarlögum um stjórn fiskveiða. Í þessari ræðu minni vil ég ekki fara í þá umræðu, hún bíður þess tíma þegar mælt verður fyrir því frumvarpi. En þau atriði sem hérna hafa sérstaklega verið rædd eru mismunandi viðhorf til þess hvernig meginmarkmið þessa frumvarps er nálgast, þ.e. breyting á lögunum, annars vegar byggðatenging fiskveiðiheimilda og hins vegar að opna fyrir aukinn hlut strandveiða.

Með álagningu veiðigjalds er í þessu frumvarpi lögð áhersla á að hluti af því veiðigjaldi sem lagt yrði á fari til sjávarbyggða á landsbyggðinni. Mér kemur ekkert á óvart þó að um það séu skiptar skoðanir, alls ekki, en þetta er samt umræða sem Alþingi á að taka. Sjávarútvegurinn og fiskveiðarnar eru ekki aðeins undirstaða stórs hluta okkar efnahagslífs, okkar gjaldeyristekna, heldur líka grunnurinn að skipulagi, byggðamunstri og því íslenska samfélagi sem við búum í og allar atvinnugreinar eru hluti af. Ein harðasta gagnrýnin á afleiðingar sjávarútvegsstefnu fiskveiðistjórnar undanfarinna ára, hvort sem hún er með réttu eða röngu að öllu leyti, hefur verið hvað sjávarbyggðirnar sem búa við hina miklu auðlind hafa lítið öryggi, sérstaklega íbúarnir í sjávarbyggðunum sem settust þar að en sjávarbyggðirnar byggðust upp vegna nálægðar sinnar við fiskimiðin. Á þessu geta verið mismunandi skoðanir, en það er afdráttarlaus skoðun mín að til þessa eigi sérstaklega að horfa. Frumvarpið sem við höfum verið að ræða lýtur sérstaklega að þessum meginþáttum og því að hlutverk alls fiskiskipaflotans sé að taka þátt í aðgerðum þeim tengdum. Þess vegna er í þessu frumvarpi lagt til að útgerðir í sjávarveiðum taki þátt í að mynda þær aflaheimildir sem eru til ráðstöfunar eins og í beinum byggðaaðgerðum.

Þegar við ræðum um sjávarútveginn og fiskveiðar er oft og tíðum eins og við séum bara að tala um þorsk. Auðvitað er staða þorsksins mjög mikilvægur þáttur, einnig fyrir hinar dreifðu byggðir meðfram ströndinni. Umræðan hneigist eðlilega að þorskinum og helst vildum við geta veitt og notað hvern þorsk þrisvar sinnum til að uppfylla þær óskir sem við erum með. En auðlindin er takmörkuð og þess vegna getum við aldrei uppfyllt óskir allra í þeim efnum. Að mínu mati ber okkur að koma til móts við þau sjónarmið að styrkja stöðu sjávarbyggðanna og opna líka fyrir að fleiri geti sótt sjóinn, veitt, þótt í takmörkuðum mæli sé, og þá fénýtt þann afla eins og hlutverk strandveiðanna er og ekki síst að koma til móts við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem gerði mjög alvarlegar athugasemdir við skipan fiskveiðistjórnarmála hjá okkur.

Ég ætla að víkja enn frekar að umsögn fjármálaráðuneytisins, sem hefur verið rædd hér, um frumvarpið þar sem vikið er að því að það standist ekki stjórnarskrá og sitthvað fleira. Nú er mjög sérstakt að skrifstofa fjármálaráðuneytisins, sem fer með þessi mál, skuli senda frá sér álit af þessum toga og með gildishlöðnu orðalagi eins og: „Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar“ — en þó er engin umfjöllun um það eða sú skoðun rökstudd neitt frekar. Í ýmsum tilfellum er vísað í óskilgreindar heimildir svo sem „ábendingar“ sem komið hafi fram, spurningar sem „kynnu að vakna“ o.s.frv. Þetta álit er því mjög sérstakt í þeim efnum að sú ákvörðun sem þarna er lögð til, um að skipta veiðigjaldinu með þessum hætti, er pólitísk og hluti af því að mæta þeim byggðasjónarmiðum sem ég hef minnst á.

Menn geta rifjað upp umræðuna um fjárlagafrumvarpið síðastliðið haust þar sem var dregið í efa að einstök ákvæði sem þar voru lögð til, þó að það væri gert í lagafrumvarpi, uppfylltu jafnræðisreglu um mismunun á milli landshluta, mismunun á milli fólks eftir því hvar það byggi. Eins og við munum var óskað eftir því sérstaklega í fjárlaganefnd, og ég vona að sú vinna sé í gangi, að gerð yrði sérstök úttekt á byggðaáhrifum fjárlaganna. Fjárlagafrumvarpið er unnið af fjármálaráðuneytinu og því fylgir ekki nein sérstök úttekt á byggðaáhrifum þess en við munum vel frá umræðunni þegar komu fram tillögur um gríðarlegan niðurskurð á heilbrigðisstofnunum úti á landi með fjöldamótmælum sem er mjög óvenjulegt að komi frá landsbyggðinni. Þá hefði verið eðlilegt að leggja mat á byggðaáhrif fjárlagafrumvarpsins. Ég rifja þetta bara upp til að menn átti sig á því að þetta er alvörumál og í sjálfu sér eilífðarmál í þessari umræðu, enda veit ég ekki betur en — það væri náttúrlega ágætt ef það yrði upplýst — sú beiðni að Byggðastofnun taki út byggðaáhrif einstakra aðgerða í fjárlögum og fjárlagafrumvarpinu sé í fullum gangi eða það vona ég. Það væri gott ef það yrði a.m.k. búið áður en við göngum frá næsta fjárlagafrumvarpi.

Ég vildi víkja aðeins að umsögninni því að hún hefur verið rædd. Ég vísa því algjörlega á bug að þessi tilgreinda tillaga um að skipta hugsanlega veiðigjaldinu sé á nokkurn hátt brot á stjórnarskrá eða jafnræðisreglu. Það má þá tína margt til í þeim efnum. Hins vegar er þetta pólitísk spurning og það er þá Alþingis að taka afstöðu til hennar en hér er hún lögð fram.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð til viðbótar um þetta frumvarp. Þetta er búin að vera mjög góð umræða og frumvarpið fer nú til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til meðferðar og ég vænti þess svo fastlega að það verði að lögum áður en þing fer í hlé í vor. Það er gríðarlega mikilvægt að mínu mati að þau ýmsu ákvæði sem eru í þessu frumvarpi og ég gerði grein fyrir þegar ég mælti fyrir því og hafa verið rædd hér geti komið til framkvæmda. Við getum þá nýtt enn betur möguleikana sem við sjáum í þeim aðgerðum sem þar eru lagðar til.

Frú forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og Alþingi afgreiði þetta mál sem fyrst og læt máli mínu lokið.