139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nýjar fréttir fyrir mér að þessi skipting sé að tillögu Landssambands smábátaeigenda. Mér er hún algjörlega óskiljanleg. Ef ég ber saman til dæmis svæði A, sem Vestfirðingar róa frá, fengu þeir að róa í fimm daga en svæði B átti eftir 30% af þeim heimildum sem var úthlutað til þeirra þegar einn dagur var eftir af veiðunum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það voru ógæftir á þessum tíma en það var ekki samræmi í úthlutuninni á milli þessara tveggja svæða. Svæði A naut ekki sannmælis gagnvart svæði B. Hæstv. ráðherra segir að það sé mikilvægt að dreifa þessu öllu en þá er líka mikilvægt að allir hafi sama aðgang. Þeir fengu 499 tonn á svæði A en hefðu átt að fá 720 tonn til að njóta jafnræðis á við svæði B. Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt en þakka fyrir þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra veitir hér, að þetta sé gert að tillögu (Forseti hringir.) Landssambands smábátaeigenda.