139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið mig að því leyti til að þetta sé gert að tillögu Landssambands smábátaeigenda, hins vegar var þessi skipting borin undir þá og hvort ástæða væri til að breyta til.

Á hinu vil ég líka vekja athygli hv. þingmanns, að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir heimild til að skipta þessu tímabili. Núna skiptum við á mánuði en það mætti skipta veiðinni á skemmri tímabil til að dreifa þessu betur, t.d. á hvern hálfan mánuð.

Í öðru lagi er gerð tillaga um að þessi veiðileyfi séu fyrst og fremst bundin eigendum bátanna þannig að sami aðili geti ekki gert út marga báta á strandveiðar, það sé fyrst og fremst hugsað að eigandinn geri út. Þess vegna er til dæmis lagt til að eigandi fiskiskips skuli vera lögskráður á skipið þannig að verði frumvarpið samþykkt mundi þetta gilda frá og með 1. september, þ.e. næsta fiskveiðiári.

Þetta er gildandi form (Forseti hringir.) en ef það er rökstudd ástæða til að hafa það með öðrum hætti er sjálfsagt að skoða það.