139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að sér sé ekki svæðaskiptingin föst í hendi. Þá bara breytir hann henni því að það er hæstv. ráðherra einn sem getur breytt þessari svæðaskiptingu.

Við vöruðum við þessari svæðaskiptingu og margítrekuðum það. Nú hefur það gerst að bæði formaður og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis hafa lýst því yfir að þeir vilji breyta svæðaskiptingunni en hæstv. ráðherra þybbast við og vill ekki gera það. Það er hann sem ræður nema Alþingi taki af skarið og taki það vald af honum. Hæstv. ráðherra ætlar hins vegar að sækja sér meira vald, m.a. til þess að geta ákveðið það eftir eigin höfði hvernig tímabilaskiptingin er.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki varðandi eiganda fiskiskipsins. Ég er algjörlega ósammála honum um það t.d. að banna lögaðilum að standa að útgerð skipa sinna. Við vitum að strandveiðibátarnir hafa verið að hækka í verði, það er orðið mjög erfitt fyrir ýmsa sem vilja komast inn í þessar veiðar af þessum ástæðum að fara þar inn vegna þess að þá skortir fjármagn. Þá þurfa þeir mögulega að leita að viðbótarfjármagni (Forseti hringir.) og það gera þeir með því að stofna hlutafélag og fá viðbótarhlutafé. Er hæstv. ráðherra þá í raun að leggja að þeim sem stofna hlutafélag um svona báta til þess að komast í róðra verði bannað það?