139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg makalaus málflutningur hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég þarf að fá það fram frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi verið fylgjandi því og hvort hann hafi raunverulega viljað, sjávarútvegsráðherrann sjálfur sem ber ábyrgð á regluverki þessarar atvinnugreinar, leggja fram þetta frumvarp án þess að hafa hagfræðilega úttekt í höndunum. Var það virkilega vilji hæstv. sjávarútvegsráðherra eða var þrýstingurinn svo mikill frá samstarfsflokknum að hann varð að leggja þetta frumvarp fram? Ég vil bara fá svar frá hæstv. sjávarútvegsráðherra við þessari spurningu. Þetta er grundvallaratriði.

Úr því að talið barst að því að hér synti fiskur í kringum allt land held ég að við vitum það mætavel. En að láta sér detta í hug að leggja fram frumvarp sem menn hafa ekki hugmynd um hvaða afleiðingar hefur, ég tala nú ekki um á þeim tíma í sögu þjóðarinnar þegar við glímum við ákveðna erfiðleika, kippa fótunum undan atvinnugreininni og segjast síðan ætla að kanna það einhvern tímann seinna hvaða áhrif það hafi — bara einhvern tímann seinna.

Það er kannski ráð að hæstv. sjávarútvegsráðherra lesi það sem stendur núna í 1. gr. laga um stjórn (Forseti hringir.) fiskveiða. Hvað stendur þar, hæstv. sjávarútvegsráðherra?