139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að í öllum meginatriðum er fylgt þeirri reglu sem hv. þingmaður minntist á. Hins vegar getur sú staða komið upp með nýja stofna, sem ekki er komin reynsla á hvað varðar að meta stærð þeirra og annað og ekki liggur fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, að beita þurfi öðrum veiðiaðferðum, svipað og við gerum núna í makrílnum þar sem beitt er öðrum aðferðum en að úthluta beint á skip á grundvelli aflamarks.

Í núgildandi lögum þegar stofn er vannýttur, eins og t.d. með rækjuna sem talið var að væri minna veidd en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar heimilaði eða lagði til í þeim efnum, þá eru tvær aðferðir, annars vegar úthlutað á skip og hins vegar ólympískar veiðar. (Forseti hringir.) Ég tel að þarna, og einkum við sértækar aðstæður, eigi að vera svigrúm til að beita annarri stýringu.