139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög skýrt kveðið á um það í frumvarpinu að það byggist að meginhluta á aflahlutdeildarkerfinu. Þar er hlutdeild skipt í nýtingarsamninga annars vegar, sem eru meginhluti aflaheimildanna, og hins vegar í aðra hluta eins og byggðahluta, strandveiðihluta o.s.frv. Þar er því um beina hlutaskiptingu að ræða.

Það getur verið mjög óheppilegt að hafa þetta algjörlega klippt og skorið. Eins og ég sagði þegar ég nefndi nýja stofna sem væru að koma inn eru miklar breytingar á stofnum. Menn hafa rætt um hugsanlegar breytingar og nefnt strandveiðarnar hér í þingsal, að þær færðust yfir í annað kerfi. Ég er ekki hlynntur því þessa stundina, en þarna getur verið lagalegt svigrúm. (Forseti hringir.)

En það er óbreytt, herra forseti, að aflahlutdeildarkerfið er grundvöllur á bak við þessa skiptingu enda byggir hún líka að hluta til á ráðgjöf (Forseti hringir.) Hafrannsóknastofnunar á viðkomandi stofnum.