139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins sem leggur fram þetta kostnaðarmat er ekki löggjafinn. Þetta er mat hennar og vafalaust má finna aðrar leiðir í þessari skiptingu. Grundvallarhugmyndin er að sjávarbyggðirnar eigi að njóta hluta af slíkri gjaldtöku og ég er þeirrar skoðunar.

Hins vegar hef ég lagt mín mál fyrir Alþingi og kynnt þau. Þau hafa farið í gegnum ríkisstjórn og gegnum þingflokka stjórnarflokkanna. Þar veit ég að eru skiptar skoðanir um einstaka útfærsluþætti, m.a. í þessu, en ég treysti Alþingi til að taka heildstæða afstöðu til þessa máls sem og annarra sem hér eru lögð fram. Af minni hálfu er þetta mál núna í höndum Alþingis en ég hef sagt mína skoðun á því hvernig ég tel að það eigi að vera. Alþingi tekur svo (Forseti hringir.) sína afstöðu.