139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg mikla áherslu á þessa hagfræðilegu úttekt og að hún sé síðan þá leiðbeinandi um framhald vinnu málsins, mikil ósköp. Hér dettur engum í hug að hrinda í framkvæmd einhverju sem mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn í landinu, enda hefur því verið lýst yfir.

Hins vegar tel ég að með þessu frumvarpi séu einmitt stigin mjög nauðsynleg skref og gerðar brýnar aðgerðir. Ég minni aftur á að það er afar mikilvægt að tryggja óyggjandi að þessi auðlind sé í eigu þjóðarinnar sem og ráðstöfun hennar. Á því má enginn vafi leika. Það er grundvallaratriði. Ég ítreka að ég flyt þetta mál og það er gott að flytja það. (Forseti hringir.) Þetta er ríkisstjórnarmál og þingflokkar beggja stjórnarflokkanna hafa (Forseti hringir.) heimilað framlagningu á því. Að sjálfsögðu geta verið skiptar skoðanir um einstök atriði (Forseti hringir.) og það er bara eðlilegt í þessari umræðu, herra forseti.