139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ræða tvennt undir liðnum um fundarstjórn forseta, í fyrsta lagi komust færri að en vildu í andsvör við hæstv. ráðherra eins og fram kom í máli forseta en svo virðist sem einhvers konar kvótakerfi hafi verið innleitt í andsvörum þar sem það virðist ekki hafa farið eftir því venjubundna — fyrstur kemur, fyrstur fær — heldur var úthlutað eftir flokkum að einhverju leyti. Ég geri athugasemd við þetta ef satt er.

Hins vegar óska ég eftir því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra verði viðstödd umræðuna. Þá meina ég alla umræðuna vegna þess að þetta er stórmál sem snertir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar eins og hér hefur komið fram er, snertir grundvallaratvinnuveginn og afkomu okkar. Þessir tveir ráðherrar hafa haft miklar skoðanir á þessum málum, hafa hins vegar ekki tjáð þær hér í umræðunni (Forseti hringir.) um hið fyrra mál og þess vegna fer ég fram á það, herra forseti, að þau verði kölluð hingað til þings og verði viðstödd alla umræðuna.