139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég leið fyrir kvótann á andsvörum áðan og þykir mér það miður, en ég fer fram á að hæstv. velferðarráðherra verði viðstaddur þessa umræðu. Hæstv. forsætisráðherra hefur haft mikil áhrif á velferðarkerfið en ég vil að velferðarráðherra komi líka vegna þess að það er hvergi nokkurs staðar góð velferð í neinu landi nema það sé styrkt atvinnulíf og arðbært, og hér kemur fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann ætli ekki að gefa neitt fyrir arðbærni eða hagkvæmni kerfisins. Það skiptir engu máli þó að hagfræðileg úttekt segi að kerfið sé slæmt, það á ekki að breyta neinu.

Ég vil gjarnan að hæstv. velferðarráðherra sé viðstaddur umræðu um þá stefnu að fórna arðseminni og þar með velferðarkerfinu fyrir einhverja rómantík. Hann getur þá gætt hagsmuna þeirra sem njóta velferðarkerfisins.