139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem komið hefur fram hjá öðrum þingmönnum að ég tel fulla ástæðu til þess að hæstv. forseti geri athugasemdir við það þegar einstaka þingmenn ætla að gera aðra þingmenn vanhæfa, ætlast til þess að aðrir þingmenn tjái sig ekki um tiltekin mál.

Vegna þess að hv. þm. Þór Saari kom hér upp aftur og færði þau rök fyrir máli sínu að sá hv. þingmaður sem hann hefði verið að tala um hefði persónulega hagsmuni af málinu þá er það nú svo að allir þingmenn hafa meira og minna persónulega hagsmuni af öllum þeim málum sem við erum að ræða hér og það á ekki hvað síst við um sjávarútvegsmálin sem varða efnahag landsins alls og möguleika okkar á að lifa mannsæmandi lífi í landinu.

Af því að hv. þm. Þór Saari vill ekki að menn ræði mál sem varða þau svið eða þá hópa sem þeir á einhvern hátt tilheyra hafa þingmenn Hreyfingarinnar margoft lýst því yfir að þeir séu einu fulltrúar almennings á Alþingi. Og er þá ekki eðlilegt að fulltrúar Hreyfingarinnar taki ekki þátt í umræðum um málefni almennings?