139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari getur ekkert skáskotið sér undan sínum eigin ummælum með því að segja að hann hafi ekki verið að vega persónulega að hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Auðvitað var hann að því. Hann var að gera það með þeim hætti að hann vildi útiloka hann hérna frá einna veigamestu umræðu sem fer fram í þinginu. Það er auðvitað alveg fráleitt.

Eins og hér hefur komið fram var ákaflega mikilvægt að hæstv. forseti tók af skarið um að hv. þingmenn eru ekki vanhæfir til þess að taka þátt í umræðu almennt talað og það gildir auðvitað að öllu leyti. Við erum sífellt að taka afstöðu til mála sem snerta okkar persónulegu og fjárhagslegu hagsmuni, eins og t.d. skattamál. Eru þá þingmenn vanhæfir í þeim efnum?

Ég ítreka þetta: Það hefur verið og er styrkur þingsins að hingað inn í þingið hefur oft valist fólk sem hefur komið úr atvinnulífinu og kannski er það núna veikleiki þingsins að það eru ekki nægilega margir slíkir einstaklingar hér til staðar. Þess vegna er það styrkur fyrir okkur í þessari umræðu eins og annarri að hafa mann eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem gjörþekkir sjávarútveginn, hefur hafist þar upp af sjálfum sér (Forseti hringir.) með sinni eigin atorku og dugnaði.