139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um þetta, við hæstv. ráðherra. Það er mjög mikilvægt að við sinnum þessu markaðsstarfi. Eins og hæstv. ráðherra bendir á eru Norðmenn að setja mjög stórar fjárhæðir í markaðssetningu og hættan er sú að við verðum undir. Það er líka mikilvægt að við reynum að eyða óvissu um sjávarútveginn, einmitt til að hann geti farið enn frekar í markaðssetningu sem mun að sjálfsögðu á endanum leiða til þess að við fáum mun meiri tekjur fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Við erum algjörlega sammála. Hæstv. ráðherra nefndi rannsóknasjóðinn yfir svokölluðum VS-afla, það er mjög mikilvægt að svo verði áfram því að þar hefur verið komið í gegn mjög merkilegum og mikilvægum verkefnum. Við verðum við að standa sameiginlegan vörð um hann og þar erum við hæstv. ráðherra sammála.

Ég er hins vegar mjög ósáttur við þessa almennu deild í verkefnasjóðnum sem ég hef ekki tíma til að fara yfir núna. Ég hef margoft gert það og það er mjög óeðlilegt að þar hafi einstakar stofnanir nánast frjálsan aðgang (Forseti hringir.) að fjármagni.