139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að sjávarútvegurinn er hátæknimatvælaframleiðsla. Hann er ekki bara um að fara út á sjó og veiða einhverja fiska, það er ekki sama hvernig það er gert. Það er mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu og þess vegna er mikilvægt að halda áfram á þessari braut.

Ég fagna því hins vegar sem hæstv. ráðherra segir, að hugmynd hans sé að endurskoða hvernig staðið er að því að ákveða heildaraflamark í hverri tegund. Mín skoðun er alveg skýr, alveg sama hver ráðherrann er á hverjum tíma. Hann á að færa rök fyrir máli sínu, skila inn tillögum og þingið á að taka þessa ákvörðun. Það tel ég mjög hollt, þá fáum við einhverja umræðu. Við vitum öll um allar þær deilur sem hafa staðið á milli sjómanna undanfarin ár eða áratugi út af því sem Hafrannsóknastofnun gerir. Það er mjög mikilvægt að þeim skilaboðum sé komið á framfæri og þess vegna tel ég mikilvægt að breyta þessu í þá veru að ráðherra leggi fram tillögur sem verða svo samþykktar í þinginu. Það mun færa okkur framar og líka í (Forseti hringir.) miklu vitrænni umræðu um heildaráhrifin þegar við erum (Forseti hringir.) að ákveða aflamagnið.