139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar lengd nýtingarsamninganna sem hv. þingmaður spyr um held ég að það sé mjög mikilvægt að menn fari yfir það hvað er eðlileg afskrift í fjárfestingunni í kringum sjávarútveginn. Ég held að menn verði að skoða það í rólegheitunum og nota sömu aðferðafræðina. Þá er ég ekki að tala um sömu tímalengd og í vatnsaflinu eða orkunýtingunni í heita vatninu. Ég held að menn verði að skoða hvað er eðlilegt. Ég er ekki með neina patentlausn á því. Það er dálítið loðið hvernig þessi endurnýjun á sér stað, mér finnst eðlilegt að menn hafi ákveðinn samning sem ríkið gerir við viðkomandi aðila og standi hann að öllum hluta við samninginn endurnýjast hann með einhverjum ákveðnum hætti. Það þarf að tryggja betur. Hættan við þetta er sú að það fjari undan, menn hætti að fjárfesta og verði í óvissu og þá munu að sjálfsögðu allir þeir sem eru litlir og meðalstórir deyja. Þessir stóru munu lifa af, það liggur alveg fyrir og við sjáum það á fyrstu viðbrögðum fjármálastofnananna sem segja: Það er miklu (Forseti hringir.) styttri tími sem þú hefur og verður að standa skil á afskriftum vegna skuldbindinga þinna þannig að það gefur augaleið að þetta verða menn að skoða mjög vel.