139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar bara að rifja það upp í þessari umræðu í sambandi við eignarhaldið á auðlindinni að það var í sáttanefndinni sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fór fyrir því hvernig það yrði gert. Það var enginn ágreiningur um að sett yrði inn í stjórnarskrána ákvæði um að auðlindin væri í eigu þjóðarinnar og væru engar deilur um það meir. Það getur vel verið að einstaka aðilar úti í þjóðfélaginu telji það ekki rétt en ég var fyrst og fremst að vísa til stjórnmálaflokka á Alþingi. Auðvitað er til fullt af fólki sem hefur fullt af skoðunum á öllum sköpuðum hlutum og við náum aldrei að sætta það allt saman, bæði öfgar til vinstri og hægri.

Hv. þingmaður spyr: Hverjir eru ágallarnir og hverju þarf að breyta? Ég næ ekki að svara því. Það þarf til að mynda að taka út úr þjóðfélagsumræðunni að auðlindin sé klárlega í eigu þjóðarinnar. Henni er ráðstafað af Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Það er fært í allar áttir áður en henni er úthlutað þannig að það er margt sem þarf að skoða. Við munum kannski aldrei finna þetta fullkomna kerfi (Forseti hringir.) en við þurfum auðvitað að skoða það og aldrei að trúa því að við séum komnir (Forseti hringir.) á leiðarenda með endurskoðunina.