139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að benda hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, á að lesa frumvarpið betur. Það er nefnilega akkúrat öfugt miðað við það sem hv. þingmaður hélt fram. Til að mynda þegar hún talar um smábátana og smábátaútgerðina, þ.e. krókaaflamarkið, er tvennt sem ég tel þar mjög hættulegt. Í fyrsta lagi er aukafyrning í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Það mun vera að stærstum hluta í smærri útgerðarflokkunum. Það er mjög hættulegt ákvæði.

Ef hv. þingmaður heldur því fram að þessi útgerðarflokkur sé mjög hagkvæmur, sem ég ætla ekki að deila við hana um, er líka ákvæði í frumvarpinu sem segir að bannað sé að leigja úr svokölluðu stóra kerfi, þ.e. aflamarkskerfinu, inn í krókaaflamarkskerfið. Það mun hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir mjög marga sem eru í smábátaútgerðinni. Það sem er að gerast í frumvarpinu er þveröfugt við það sem hv. þingmaður heldur fram. Ég hvet hv. þingmann til að skoða það sérstaklega í meðförum nefndarinnar þar sem hún er formaður hennar þannig að hún geri sér þá grein fyrir hvað verið er að leggja til í frumvarpinu en hafi ekki um það (Forseti hringir.) einhverjar aðrar hugmyndir en stendur í því. (LRM: En hvar er spurningin?) Nákvæmlega.