139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að ég vona að hæstv. forsætisráðherra hafi verið að hlusta á ræðu hv. þingmanns. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að draga úr þessum stóryrtu yfirlýsingum þegar menn eru að reyna að ná sátt í kerfinu og vænti þess að hæstv. forsætisráðherra hafi hlustað á þetta og taki það sérstaklega til sín.

Ég ætla að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns í þessu stutta andsvari.

1. Hver er ástæðan fyrir því að fjórar tegundir eru fyrndar sérstaklega, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur? Hver er ástæðan fyrir því að þær eru teknar út með sérreglum? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að það komi illa við litlu og meðalstóru útgerðirnar?

2. Gerir hv. þingmaður einhvern greinarmun á því hvort þessar kvótalausu útgerðir eru áður búnar að selja frá sér heimildir þegar hv. þingmaður gerir athugasemdir við aðgang að kvótalausum útgerðum að fiskveiðiauðlindinni?