139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur átt sér stað eðlileg tæknivæðing í sjávarútvegi, sem betur fer, og í öllu okkar atvinnulífi. Fólki hefur fækkað vegna þess að teknar hafa verið upp tækninýjungar. Það er eðlileg þróun. Óréttlætið sem við erum að tala um er ekki vegna tækniþróunar undanfarinna áratuga heldur vegna meðferðar aflaheimildanna og fyrirkomulagsins innan greinarinnar þar sem aflaheimildir hafa runnið með óeðlilegum hætti út úr byggðarlögum. Byggðir hafa raskast og atvinnulíf sömuleiðis vegna óeðlilegrar samþjöppunar í greininni og vegna þess að það er ekki eðlilegur markaður með aflaheimildir. Menn hafa verið ofurseldir því að gerast leiguliðar hjá stórútgerðinni þegar þeir hafa ætlað að koma inn í greinina, ekki getað keypt sig inn í hana. Það eru þessi skilyrði sem hafa valdið þeirri gríðarlegu röskun sem blasir við og því óréttlæti sem mönnum svíður.