139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við verðum að ræða byggðaröskunina og komast til botns í því umræðuefni en við komumst hins vegar aldrei fram hjá þeirri staðreynd sem ég nefndi, að skipunum hefur fækkað sem hefur afleiðingar fyrir einstakar byggðir. Hins vegar er staðreyndin sú að 90% aflaheimilda eru óvart á landsbyggðinni þannig að við erum fyrst og fremst að tala um tilfærslur milli byggðarlaga þar. Það er mjög villandi að tala um að heimildirnar hafi runnið frá sjávarbyggðunum, þær hafa runnið milli sjávarbyggða. Ég veit vel að þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér víða um landið.

Þá verðum við að takast á við það, en ég er einfaldlega að segja að ef við hv. þingmaður erum sammála um að þróunin verði sú að skipum muni frekar fækka vegna þess að afköst þeirra aukast mun það áfram hafa þessar afleiðingar. Það að vera með einhverja tilfærslupotta breytir ekki þessu stóra vandamáli. Það getur leyst tímabundinn vanda á einum stað en mun líka valda skerðingu á öðrum stað. Við erum einfaldlega að tala um ákveðið magn (Forseti hringir.) sem er til skiptanna. Ég kalla eftir því frá hv. þingmanni að menn horfist í augu við þennan veruleika og takist á við hann en það er ekki hægt að gera það endalaust (Forseti hringir.) innan þessa kerfis.