139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt hjá mér að ég sé næstur á mælendaskrá. Ég tek eftir því að í salnum er ekki einn einasti ráðherra, hvorki hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra né heldur til að mynda hæstv. forsætisráðherra sem ég kallaði eftir í ræðu við fyrra frumvarp að væri æskilegt að væri á staðnum, kannski ekki síst í ljósi þess að í umræðum um hið svokallaða minna frumvarp sem voru hér fyrr í vikunni kom ítrekað fram hjá þingmönnum Samfylkingar og einstaka ráðherra að margt í tillögum okkar framsóknarmanna horfði til þess að það væri áhugavert að skoða. Þess vegna tel ég mjög mikilsvert að hæstv. forsætisráðherra verði hér og hlusti á ræðu mína og að ég geti átt orðaskipti við hæstv. ráðherra, ekki síður en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem kemur hér auðvitað hlaupandi. Mig langar til að fara fram á það við herra forseta að hann láti kanna þetta með hæstv. forsætisráðherra.