139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við nú frumvarp hið seinna í þessari viku um stjórn fiskveiða. Það verður að segjast eins og er, og það kom reyndar fram í umræðunni fyrr í vikunni, að það er svolítið sérkennilegt að fjalla um þessi tvö frumvarp þar sem annað þeirra fellur þegar hitt tekur við, þ.e. það sem við erum að taka til umræðu í dag, og það hefur síðan líka sólarlagsákvæði. Að 23 árum liðnum falla þau lög úr gildi og þá er það kerfi sem menn eru að ræða að setja hér upp þar með horfið og í sjálfu sér veit enginn hvað tekur við. Jafnvel má ræða það hvort ekki sé einungis um 23 ára gildistíma að ræða þar sem talað er um nýtingarsamninga til 15 ára en engu að síður skuli fara fram endurskoðun á lögunum eftir sjö ár. Þetta hefur valdið og mun valda nokkurri óvissu áfram nema það skýrist hvað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á við með þessu.

Markmið þessara laga hefur líka verið rætt talsvert og þá vil ég taka bæði frumvörpin undir. Það er ljóst að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eða skriflegri samstarfsyfirlýsingu, held ég að hún heiti, var markmiðið að fara í endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu en á grundvelli þess að tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar og raska honum hvergi. Það verður að segjast eins og er að það er leitun að finna þessi markmið í greinum frumvarpanna bæði í texta, hreina og beina yfirlýsingu um að það sé markmiðið, og hins vegar þegar maður les efnislega þær greinar sem hér eru sér þess ekki stað að það sé grundvöllur þessara frumvarpa heldur kannski miklu frekar að breyta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi frá því sem flestallir hafa talið kostina við kerfið, þ.e. það er öflugt hagstjórnartæki og hefur aukið arðsemi greinarinnar og þar af leiðandi þjóðarbúsins gríðarlega frá 1984 þegar atvinnugreinin var og hafði verið lengi háð því að hér kæmu opinberar gengisfellingar sem gerðu það að verkum að greinin stæði undir sér. Hún var með öðrum orðum rekin með stöðugum halla eða núllrekstri, oftast halla, og bæjarútgerðir og annað í þeim dúr sem við þekkjum frá þeim tíma. Það er mjög merkilegt að það skuli vera það sem hægt er að lesa út úr kerfinu, að verið sé að breyta þessari gríðarlega öflugu atvinnugrein eitthvað í átt til þess sem var fyrir þann tíma, þ.e. fyrir tíma kvótakerfisins.

Annar þáttur í þessu kvótakerfi sem hefur alla vega ekki komið nægilega skýrt fram að sé tilgangurinn og engin ástæða til að breyta er sá þáttur sem varðar verndun fiskstofnanna. Það er líka alþjóðlega viðurkennt að hið íslenska kvótakerfi sé öflugt apparat til að stunda slíkt enda hefur það bæði fengið alþjóðlegar viðurkenningar og verið skoðað af öðrum aðilum, eins og til að mynda núna síðast af Evrópusambandinu, að taka upp þá þætti í íslenska kvótakerfinu. Reyndar vildu menn ganga miklu lengra þar og það virtist vera bæði 100% framsal á milli svæða og á milli þjóða en það er nú önnur saga og ekki til umfjöllunar hér.

Það hefur líka vakið eftirtekt og það verulega að í þessum frumvörpum, og ekki síst því sem hér er til umræðu, skortir alla hagfræðilega og efnahagslega útreikninga og skoðun á áhrifum frumvarpanna. Það hlýtur að vera nánast forkastanlegt að fara inn með þetta miklar breytingar í lok þings fyrir sumarhlé án þess að það liggi fyrir samhliða hafa áhrif þetta hafi á þessa mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga sem verið hefur um langt árabil og áratugi og mun verða áfram. Í dag koma um 25% útflutningstekna þjóðarbúsins af sjávarútvegi og það mun halda áfram í þeim geira í þá áttina og mun jafnvel aukast, því að við gætum auðvitað veitt meira og munum vonandi gera það því að margt bendir til þess að fiskstofnarnir séu að styrkjast, ekki síst þorskurinn.

Það vekur líka nokkra athygli þegar við erum að hefja umræðu um þetta frumvarp að auk þeirra almennu hagfræðilegu og efnahagslegu áhrifa á land og þjóð hafi þetta ekki verið skoðað með tilliti til þess hvaða áhrif þetta hafi á einstakar byggðir, einstaka landshluta þar sem sjávarútvegur er kannski enn meiri þáttur í lífi og starfi fólksins en í meðaltalinu yfir landið allt. Þá má heldur ekki gleyma því og þarf auðvitað að taka líka tillit til í þessari efnahagslegu og hagfræðilegu skoðun að skoða hreinlega hvaða áhrif þetta hafi á einstök fyrirtæki. Þess sér hvergi stað í þessum frumvörpum. Það sem hefur auðvitað orðið til þess að menn hafi fengið einhverja sýn á þetta er að á allra síðustu dögum hafa oltið inn til okkar þingmanna, og eins á blaðamannafundi og inn á fjölmiðla, ályktanir frá einstökum byggðarlögum, útvegsbændum og félögum þeirra þar sem menn hafa reynt að fara yfir hvaða áhrif þetta hefur á annars vegar einstök byggðarlög og hins vegar einstök fyrirtæki. Það verður að segjast eins og er að það er ekki falleg lesning. Hún virðist enn og aftur staðfesta það sem við ræddum talsvert í umræðunni um fyrra frumvarpið, svokallað minna frumvarp, fyrr í vikunni þar sem það virtist vera meginatriði frumvarpsins, og þar af leiðandi það sem skilur hugmyndir okkar framsóknarmanna algerlega frá hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna, að þar sé verið að færa til aflaheimildir, færa atvinnu til einhverra annarra. Það er ekki atvinnusköpun, þar verður ekki til neinn nýr arður. Það er verið að gera aðra atvinnulausa, eins og fram kemur m.a. í ályktun frá Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar þar sem talað er um að tekjur fyrirtækjanna lækki um 350 millj. og tekjur sjómannanna um 125 millj. kr. á ári — Þorlákshöfn er auðvitað sjávarútvegsbær þar sem sjávarútvegur er aðalatvinnuvegurinn — og í auglýsingu sem birtist í héraðsblöðunum frá 21 fyrirtæki í sjávarútvegi og þjónustufyrirtækjum tengdum honum, því að vel að merkja er sjávarútvegurinn ekki bara veiðar eins og maður gæti haldið þegar maður situr í þingsal og hlustar á einstaka þingmenn heldur er sjávarútvegurinn mjög hátæknivæddur matvælaiðnaður þar sem mjög margir koma að bæði við veiðarnar, vinnsluna, markaðssetninguna og rannsóknir en ekki síður þjónustuna við þessi fyrirtæki í hverju byggðarlagi. Maður skyldi því ætla að þarna hefði mátt vanda mun meira til verka en raun ber vitni.

Auðvitað hafa fleiri fjallað um þetta eins og til að mynda í gær komu fréttir af áhrifum þess á Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar. Það má líka nefna að Samtök sjómanna og launþegahreyfingin öll hjá sjómönnum, farmenn, fiskimenn og vélstjórar og fleiri ásamt Landssambandi smábátaeigenda og Landssambandi íslenskra útvegsmanna eru sammála um að þetta sé mjög alvarleg aðför að núverandi atvinnugrein eins og hún er og að skoða þurfi miklu betur hvað hér á að eiga sér stað.

Kannski verðum við að spyrja okkur: Hverju á að breyta og af hverju? Ég hef aðeins rakið þann grundvallarmun sem er á stefnu okkar framsóknarmanna og því sem birtist í stefnu ríkisstjórnarflokkanna og þó að báðir aðilar segist byggja á sáttaleiðinni tel ég að sú leið sem við framsóknarmenn fórum og samþykktum á síðasta flokksþingi okkar rými mjög vel við þær hugmyndir sem menn urðu sammála um í hinni svokölluðu sáttanefnd ráðherra.

Hverju þarf að breyta? Í áranna rás hefur verið deilt mikið um eignarhaldið á nytjastofnunum. Við framsóknarmenn höfum talið mjög mikilvægt að sett yrði í stjórnarskrá að það væri alveg klárt að eignarhaldið væri þjóðarinnar. Með því að fara þá nýtingarsamningaleið sem við viljum fara með stærsta hlutann af veiðiheimildunum er það jafnframt tryggt að ríkisvaldið sem gerir þann samning er auðvitað að gera samning um eignarhald sitt á kvótanum. Ég held að það sé orðið alveg skýrt og greinargott

Það sem ef til vill var merkilegast við umræðuna fyrr í vikunni um minna frumvarpið þar sem líka hefur verið fjallað um þetta er að ég hef ekki heyrt nokkurn þingmann koma upp og andmæla því, ekki einu sinni þingmenn þeirra flokka sem kannski stóðu í vegi fyrir því að þetta færi inn í stjórnarskrá á sínum tíma. Allir eru sammála um að eignarhald á nytjastofnum á Íslandsmiðum sé sameign þjóðarinnar. Ég held að það séu líka flestallir sammála um að skynsamlegt sé að koma því inn í stjórnarskrá með einum eða öðrum hætti. Það hefur líka komið fram að þetta er flókið, það er lögfræðilegt atriði að skilgreina hvað sameign þjóðar þýðir og það þarf að ganga frá því. Slíkar tillögur eru í tillögum okkar framsóknarmanna og í 1. og 2. gr. þessa frumvarps er fjallað um þetta eignarhald. Ég held að það sé fullkomin sátt um það. Það getur ekki verið að hægt sé að egna til ófriðar meðal þjóðarinnar um þetta mál lengur, það eru allir sammála um það

Þá komum við að öðrum göllum á kerfinu og ástæðu þess að það þurfi að breyta og af hverju, og þá komum við að leigubraskinu. Við getum auðvitað ekki horft til þeirrar fortíðar og spólað til baka og sagt að þeir sem seldu sig út úr greininni áður séu sægreifar og þess vegna sé greinin vond í dag. Það er gersamlega rangt. Þeir sem eru í greininni í dag keyptu út hagræðinguna, það eru þeir sem borguðu kostnaðinn við að breyta greininni úr félagslegu kerfi í gríðarlega öfluga atvinnugrein sem skilar miklum arði bæði inn í greinina sjálfa en ekki síður til þjóðarbúsins. Eftir standa leigugreiðslurnar, þ.e. að menn veiði ekki það sem þeir fá úthlutað og leigi frá sér, svokallað leigubrask. Um það eru allir sammála líka, alla vega meðal hagsmunasamtaka, bæði útgerðarmanna og launþega þar, og það er líka í stefnu okkar framsóknarmanna, að það eigi að auka veiðiskylduna, það eigi að koma í veg fyrir þetta leigubrask. Um það eru allir sammála. Við getum því eytt út öðrum þætti þess sem menn hafa verið að rífast um.

Í þessu frumvarpi er svo búinn til nýr leigupottur og í stað þess að leigusalinn sé sá sem fær úthlutað aflaheimildunum ætlar ríkið að taka að sér að vera í einhverju leigubraski í stórfelldum mæli. Ég held að það hefði verið skynsamlegast að útrýma þessari leigu úr kerfinu og um það er nokkuð víðtæk sátt. Það breytir því hins vegar ekki að það þarf auðvitað að viðhalda ákveðnum sveigjanleika innan kerfisins þannig að menn geti skipst á aflaheimildum og það sé jafnvel hægt að færa aflaheimildir á milli skipa í eigin útgerð og milli ára að einhverju leyti til að koma til móts við og sinna markaðnum með sem bestum hætti.

Síðan eru það ekki margir aðrir þættir sem menn hafa fjallað um fyrir utan það byggðaójafnræði sem við höfum horft upp á á meðan greinin var að styrkja sig, kaupa út aðila sem ekki stóðust samkeppnina í þessari grein. Það voru einfaldlega allt of mörg skip og allt of margir aðilar að vinna í þessari takmörkuðu auðlind. Og þá komum við að þessu flókna kerfi með strandveiðikvóta og byggðakvóta og annað í þeim dúr. Það væri að minnsta kosti efni í aðra 15 mínútna ræðu og ég sé að ég er kominn til enda, herra forseti, í þessari. En það sem mig langar kannski til að enda ræðu mína á er það sem skorti í fyrra frumvarpið og skortir í þetta frumvarp líka, að það sé ekki megintilgangur þessara frumvarpa að færa frá einum til annarra heldur ætti öll aukning og færsla á milli flokka að byggjast á því að hér sé að verða til aukinn afli vegna þess að stofnstærðirnar séu að stækka. (Forseti hringir.) Hér skortir líka orð eins og nýsköpun og fleiri slíka þætti, hér skortir að horfa til meiri framtíðar, að stækka kökuna, en hér virðist eiga að hræra í pottinum og færa aflaheimildir á milli manna og svæða.