139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að á sjöunda ári skal endurskoða lögin og við verðum þá að treysta Alþingi, sem þá situr, fyrir framhaldinu, en þessi grunngerð er lögð upp hér. Þá er reynslan af framkvæmdinni metin og ef menn vilja breyta einhverju er það í höndum Alþingis sem að sjálfsögðu ber þarna ábyrgð. Ég óttast ekki að Alþingi axli ekki þá ábyrgð þegar þar að kemur, þannig að þetta er kannski meira öryggi á ýmsan hátt en útgerðin býr við núna.

Ég vil líka víkja að því sem hv. þingmaður kom reyndar óbeint inn á í ræðu sinni, en það er aukin fullvinnsla og fullnýting afla. Ég hef sem ráðherra lagt mikla áherslu á að komið verði með allan afla að landi, komið með allt sem fellur til, hvort sem það eru hausar, hryggur eða lifur, að komið sé með þetta allt að landi og það nýtt og gert að verðmætum. Markvissum aðgerðum hefur verið beitt til að draga úr útflutningi á svokölluðum gámafiski, óunnum fiski ísuðum í gámum. Hvað eftir annað hefur það komið fram í sölum Alþingis hversu mikilvægt það er að fiskurinn sem við veiðum sé unninn hér á landi og skaffi sem mesta atvinnu hér. Dregið hefur verið úr útflutningi á óunnum gámafiski þannig að ég hygg að hann sé nú einungis þriðjungur af því sem hann var fyrir tveimur til þremur árum. Ég tel að þarna megi gera enn betur. (Forseti hringir.) Þær byggðir sem hv. þingmaður talaði um geta sótt býsna mörg störf með því að (Forseti hringir.) takmarka enn frekar útflutning á gámafiski.