139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði mig um, hvort ég vissi um eitthvert sveitarfélag eða sjávarpláss sem teldi sig vera aflögufært til að láta af hendi aflaheimildir svo að aðrir gætu fengið, þá er það augljóslega svo eftir þann niðurskurð sem hefur verið síðastliðin 20–30 ár, frá því að menn hættu óheftri sókn og áttuðu sig á því að þetta væri takmörkuð auðlind sem við þyrftum að stýra, að afkastagetan er miklu meiri en menn fá að sækja til sjávar. Þess vegna er svo grátlegt að horfa upp á hugmyndir að kerfi sem færir aflaheimildir frá þeim sem eru starfandi í dag til einhverra annarra og kalla það nýliðun eða meira réttlæti. Ég get ekki séð hvernig það virkar.

Hugmyndir okkar framsóknarmanna snúast til að mynda um að byggja upp þessa potta þannig að um raunverulega stofnstærðaraukningu sé að ræða og því fái þeir sem hefur verið skorið niður hjá undanfarin ár sitt og hluti af aukningunni fari til þess að stækka hinn svokallaða pott tvö.

Varðandi seinna atriðið, í sambandi við aflaráðgefandi nefndir og uppbyggingu fiskstofna, hefur mér alltaf þótt það vera skynsamleg leið því að það er nauðsynlegt að hafa sem mest samráð í atvinnugreininni. Ég held að þeim mun meiri sátt yrði innan atvinnugreinarinnar eftir því sem menn hefðu meira samráð. Ég held að það gæti ekki verið verra að hafa slíka nefnd sjómanna með í ráðum, það hlýtur að vera skynsamlegra. Við þekkjum slíkt kerfi að einhverju leyti frá Noregi. Við þekkjum það líka úr íslenskum landbúnaði þar sem hafa verið settar upp fagráðsnefndir (Forseti hringir.) í hverri búgrein sem koma bæði að rannsóknum og ráðgjöf til yfirvalda. (Forseti hringir.) Það hefur orðið til þess að meiri sátt ríkir um það sem gert er.