139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp sjávarútvegsráðherra til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða. Ég held að óhætt sé að segja að frumvarpið hafi í heild sinni fengið heldur dræmar undirtektir. Enginn af hagsmunaaðilum í sjávarútveginum hefur staðið upp og fagnað þeim hugmyndum sem hér eru kynntar. Ég kannast ekki yfir höfuð við að nokkur hafi lýst sérstakri ánægju með þær hugmyndir.

Þó er þess getið í frumvarpinu að það hafi verið samið með hliðsjón af skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á stjórn fiskveiða, þ.e. skýrslu starfshópsins um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem lauk störfum í september 2010. Í hópnum komu allir helstu hagsmunaaðilar saman og fulltrúar úr öllum þingflokkum og fóru yfir helstu ágreiningsmálin sem hafa verið uppi um stjórn fiskveiða og freistuðu þess að leiða í jörð þann ágreining sem hefur verið til að skapa frið um nýtingu auðlindarinnar og koma því þannig fyrir að þeir sem væru að stunda útgerð á Íslandi hefðu fast land undir fótum og heilbrigt og öruggt starfsumhverfi. Ekki fer á milli mála að allir sem komu þar að verki lögðu töluvert mikið á sig. Það var ekki átakalaust. Menn þekkja þá sögu. LÍÚ-menn gengu frá borði um hríð, komu síðan til baka en það fékkst ákveðin meginniðurstaða. Stóru tíðindin í skýrslu þeirrar sáttanefndar eru t.d. þau að allir aðilar voru sammála um að hægt væri að gera þá stóru breytingu, vil ég segja, að færa aflahlutdeildina úr því að vera varanleg yfir í að vera tímabundin. En því fylgja að sjálfsögðu ákveðin skilyrði.

Sú stóra breyting er kynnt af hæstv. sjávarútvegsráðherra sem nauðsynleg aðgerð til að koma í veg fyrir að þeir sem fara með aflahlutdeildirnar, þeir sem hafa kvótann, eignist hann með einhverjum hætti yfir lengri tíma þannig að það verði ekki aftur af þeim tekið. Þetta er að hluta til sama umræðan og átti sér stað um þörfina fyrir stjórnarskrárákvæði um einhvers konar þjóðareign á auðlindinni. En það er ekki nýtt af nálinni að menn ræði þetta. Ég vil leyfa mér að rifja það upp í þessu sambandi, fyrst svona mikil áhersla er lögð á þetta í frumvarpinu, að síðast þegar við vorum með frumvarp til heildarlaga um stjórn fiskveiða var komið inn á þetta sama atriði. Með leyfi forseta ætla ég að lesa aðeins upp úr frumvarpinu sem varð að nýju heildarlögunum frá árinu 1990. Þar segir í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins:

„Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talið myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“

Ég vil koma því að í umræðunni að það er alger óþarfi fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að gera þessa stóru kerfisbreytingu til þess eins að ná þessu markmiði vegna þess að það er alveg kristaltært samkvæmt gildandi lögum að þeir sem fara með heimildirnar hafa ekki yfir þeim neinn stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Hann er einungis mjög takmarkaður, þ.e. ekki er hægt að hrifsa heimildirnar af mönnum fyrirvaralaust en of langt mál er að fara ofan í smáatriði málsins til að rekja það.

Síðan er önnur sérstök ástæða nefnd fyrir því að gera þessa nýtingarsamninga. Hún er sú að þá verði það tryggt að menn greiði gjald fyrir heimildirnar til ríkisins. Mér finnst það vera óútskýrt í þessu máli heilt yfir séð hvernig menn hugsa þá veiðigjaldið annars vegar sem gjald fyrir aðganginn að auðlindinni á móti greiðslunni sem á að koma til ríkisins eftir þessum nýtingarsamningum. Þar til viðbótar finnst mér umræðan um arð til þjóðarinnar öll bera þess merki að menn sjái ekki heildarsamhengi hlutanna þar sem það er grundvallaratriði að arðurinn til þjóðarinnar kemur eftir margvíslegum leiðum. Hann byggir allur á því að útgerðinni séu búin hagkvæm skilyrði, að útgerðinni séu búin skilyrði til að skila hagnaði, til að fjárfesta, ráða til sín fólk og greiða góð laun. Af góðum launum verða greiddir skattar, af hagnaði verða greiddir skattar, af fjárfestingum munu skila sér tekjur til ríkisins og af ýmissi þjónustu sem sjávarútvegsfyrirtæki veita eru greiddir skattar og þar myndast líka störf. Þetta vil ég segja um það markmið frumvarpsins að tryggja þjóðinni annars vegar áframhaldandi fullt forræði á auðlindinni, sem ég tel að sé alveg ótvírætt hvort sem er, ríkið fer með fullveldisréttinn yfir þessari auðlind, og hins vegar það markmið laganna að skila þjóðinni í auknum mæli afgjaldi, arði af nýtingunni.

Ég vil líka halda því til haga í því samhengi að í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins var veiðigjaldinu komið á. Eftir starf auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 þar sem við fórum í gegnum þessa sömu umræðu, nákvæmlega sömu umræðu um að tryggja þyrfti þjóðinni hlutdeild í arðinum, var veiðigjaldinu komið á og það var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Það er því mjög holur hljómur í málflutningi þeirra sem segja Sjálfstæðisflokkinn vilja standa vörð um einhverja sérhagsmuni og koma í veg fyrir að slíkri gjaldtöku sé komið á.

Ég nefndi það í upphafi máls míns að engir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eða yfir höfuð nokkur annar sem ég hef heyrt frá hefur fagnað þeim hugmyndum sem hér eru kynntar og það þrátt fyrir að þær séu sagðar vera byggðar á skýrslu starfshóps sáttanefndar. Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að menn náðu víðtækri samstöðu í starfi sáttanefndarinnar og frumvarpið er sagt byggja á þeirri samstöðu en samt eru engir sem fagna því að málið er komið fram? Kannski er skýringanna að leita í því sem fram hefur komið í umsögnum ýmissa hagsmunaaðila. Við getum horft til Farmanna- og fiskimannasambandsins sem dæmi. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Efni frumvarpanna er óravegu frá því samkomulagi sem varð niðurstaða svokallaðrar sáttanefndar síðastliðið sumar.“

Við getum líka horft til ályktunar stjórnarfundar Landssambands smábátaeigenda sem ályktuðu 18. maí sl. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er samið án minnstu aðkomu þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Sú vinnutilhögun er harla ólíkleg til að skapa sátt við þá sem þar eiga hlut að máli. Þó finna megi einstaka samhljóm við niðurstöður sáttanefndarinnar er langsótt að halda því fram að frumvarpið byggist á þeim niðurstöðum.

Að óbreyttu frumvarpi blasir við að fjölmargar smábátaútgerðir munu eiga enn erfiðar með að glíma við rekstrarumhverfi sem um langa tíð mun einkennast af hruni efnahagskerfisins síðla árs 2008.“

Fleira gæti ég haft eftir úr þessari ályktun stjórnarfundar LS. En það blasir sem sagt við að það stenst enga skoðun sem haldið er fram að frumvarpið endurspegli niðurstöðu sáttanefndarinnar og langt frá því.

Í því frumvarpi sem lagt var fram á sínum tíma um ný heildarlög um stjórn fiskveiða voru markmið frumvarpsins afar skýr. Hér er ég að vísa til frumvarpsins sem varð að lögum 1990. Þar sagði t.d.: „Með frumvarpi þessu er að því stefnt að setja almennar leikreglur um fyrirkomulag fiskveiða er stuðli að sem mestum afrakstri úr þessari takmörkuðu auðlind.“ Mjög skýrt markmið. Afraksturinn af nýtingu auðlindarinnar var í algerum forgangi. Er það markmiðið í þessu frumvarpi? Það segir í einstaka greinum, en allar breytingar frá núgildandi kerfi eru til þess að draga úr afrakstri af nýtingu auðlindarinnar, allar, hver og ein hin einasta. Hægt væri að fara yfir helstu breytingar frumvarpsins lið fyrir lið og rekja dæmi þess hvernig hver og ein breyting dregur úr hagkvæmni og eykur sóun og óvissu. Meira og minna er allt sem lagt er til hér til óhagræðis og skapar óvissu inn í framtíðina. Það verður verkefni nefndarinnar að fara ofan í saumana á því ef nefndin yfir höfuð mun eitthvað vinna í málinu, en eins og það er lagt fram og umræðan fer af stað þá virðist mér reyndar ekki vera nokkur alvara af ríkisstjórnarinnar hálfu í því að gera frumvarpið að lögum, kannski sem betur fer.

Það sem er alvarlegast við málið er að okkur hefur ekki tekist að fá umræðu sem ég vil kalla á heiðarlegum nótum um það sem er verið að gera. Ég hefði viljað sjá hæstv. sjávarútvegsráðherra koma hingað og lýsa því fyrir okkur hvers vegna það er réttlætanlegt að taka aflaheimildir frá einum og færa til annars í gegnum ráðuneytið, hvernig hann réttlætir það að þeir sem hafa keypt aflahlutdeild háu verði þurfi núna að sæta skerðingu svo að ráðherrann geti ráðstafað viðkomandi heimildum eitthvert annað. Hvernig er þetta réttlætt af hæstv. sjávarútvegsráðherra?

Nefnt hefur verið að mikilvægt sé að taka tillit til ýmissa byggðasjónarmiða en staðreynd málsins er auðvitað sú að heimildirnar eru að uppistöðu til í hinum dreifðu byggðum landsins, í landsbyggðarkjördæmunum. Þar er megnið af öllum aflaheimildum. Hvernig samrýmist það síðan þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að tryggja þjóðinni hámarksafrakstur eða afgjald af nýtingu auðlindarinnar þegar ríkisstjórnin sjálf er að gera það óhagkvæmara að gera út. Það mun skila lægri skatttekjum og lægri launum, það mun skila minna aflaverðmæti og minni útflutningstekjum. Allt mun það verða til tjóns og verka í öfuga átt miðað við það sem menn segjast vera að stefna að. Ég lít þannig á að flestar breytingar sem eru kynntar hér séu frá markaðsvæðingu kerfisins, sem stefnt var að með góðum árangri árið 1990 og við höfum notið góðs af undanfarin ár og áratugi, yfir í félagslega stýringu veiðanna í stórauknum mæli.

Þetta frumvarp kemur til umræðu í kjölfarið af öðru minna frumvarpi sem við höfum lokið 1. umr. um. Bæði hníga þau í sömu átt, að stórauka völd ráðherrans, auka miðstýringu, draga úr fyrirsjáanleika og rekstraröryggi og þar með hagkvæmni og afrakstri af veiðum. Þessi frumvörp eru bæði til tjóns. Hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin gerðu rétt í því að setjast nú niður með hagsmunaaðilum og fulltrúum annarra þingflokka af alvöru, henda þessu frumvarpi og semja annað nýtt og betra.