139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni varð mjög tíðrætt um hinn frjálsa markað og að frá 1990 hefði ríkt hér mikið frjálsræði og markaðshyggja í sjávarútveginum. Maður getur velt því fyrir sér hvar maður er þá staddur eftir þá miklu markaðshyggju sem hv. þingmaður lofaði.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður meini í alvöru að markaðshyggjan eigi algerlega að ráða ferðinni. Hve langt á að ganga í þeirri taumlausu markaðshyggju sem hv. þingmaður lofar og prísar? Hver er staðan hjá ýmsum útgerðum þrátt fyrir þá markaðshyggju sem hefur fengið að leika lausa hala, sem hv. þingmaður mærir mjög?

Það væri fróðlegt að heyra líka hvort hv. þingmaður sé eindregið þeirrar skoðunar að það eigi þá ekki að vera með neinar aðrar aðgerðir en að markaðshyggjan ráði ferðinni. Ég er innilega ósammála hv. þingmanni í því en það væri gott ef hann færi yfir stöðuna, afleiðingar markaðshyggjunnar sem ríkt hefur frá 1991, eins og hv. þingmaður minntist á.