139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt gildandi lögum erum við með aflahlutdeildarkerfið og krókaaflamarkið til hliðar við byggðakvótann, línuívilnunina og nú strandveiðarnar sem hæstv. ráðherra hefur komið á þannig að það er ekki eins og kerfið sé alfarið byggt upp á frjálsu framsali og markaðsvæddri stýringu. En það hefur verið grunnreglan, það hefur verið meginprinsippið að menn hafa þurft að sækja heimildir í aflahlutdeildarkerfið og það er kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra komu á þegar þau voru í ríkisstjórn, það var stefna þeirra. Hverju hefur það skilað? spyr ráðherrann. Það hefur skilað stórkostlegri framför í íslenskum sjávarútvegi. Sjávarútvegsfyrirtæki sem áður voru á brauðfótum og opinberu framfæri, bæjarútgerðir sem voru sífellt á hausnum eru ekki lengur til. Nú erum við með stóröflugan sjávarútveg sem horft er til sem fyrirmyndar um alla Evrópu.