139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin heldur á málinu eins og hún hefur gert. Hún setti málið í þröngan þingmannahóp eftir að sáttanefndin lauk störfum og hefur haldið því þar í átta mánuði. Hún hefur neitað að ræða við hagsmunaaðila í útgerð allan þann tíma. Svo leggur hún fram frumvarp sem allir eru sammála um að er óravegu frá þeirri niðurstöðu, eins og Farmanna- og fiskimannasambandið orðar það, og leyfir sér að vísa í hana til réttlætingar á tillögunum.

Staða málsins er sú að ríkisstjórnin virðist telja það einhverra hluta vegna að það þjóni hagsmunum hennar að halda málinu í ágreiningi. Það er dapurlegt að verða vitni að slíku en það stendur svo sannarlega ekki á okkur í Sjálfstæðisflokknum að eiga aðkomu að nýjum lögum um stjórn fiskveiða, að breytingum til að þróa fiskveiðistjórnarkerfi okkar og bæta. Það er auðvitað ekki gallalaust og það þarf stanslaust að vera að koma til móts við nýjan veruleika, en við munum ekki taka þátt í því að eyðileggja það sem reynst hefur okkur best.