139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið við þessari spurningu er já. Það er raunhæft og við erum reiðubúin til þess. Við getum tekið helstu atriðin lið fyrir lið sem menn hafa talið að þyrfti að skoða og eftir atvikum breyta eins og að tryggja með óyggjandi hætti, jafnvel í stjórnarskrá, að aflahlutdeild sé ekki varanleg eign þeirra sem með hana fara. Við erum sammála því.

Viljum við að útgerðin greiði afgjald? Já, ég rakti það áðan að við komum á veiðigjaldinu á sínum tíma. Er hægt að ræða hvort það þurfi að hækka eitthvað. Það er sjálfsagt að gera það en það verður að skoða það í heildarsamhengi hlutanna. Er hægt að breyta aflahlutdeildinni úr varanlegri heimild yfir í tímabundna? Það er ein meginniðurstaða sáttanefndarinnar. Við höfum ekki staðið í vegi fyrir því. En auðvitað skiptir máli hver útfærslan er og útfærslan sem liggur fyrir í þessu frumvarpi. Ég leyfi mér að segja að hún sé handónýt og ekkert á henni byggjandi.