139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Mig langar að grípa aðeins niður í greinargerð með 6. gr. frumvarpsins þar sem talað er um nýtingarréttinn. Þar stendur að sá nýtingarréttur skuli vera að hámarki í 15 ár. Einnig er kveðið á um að það þurfi ekki endilega að vera 15 ár heldur sé það matskennt og svo á að vera möguleiki að framlengja þann rétt til átta ára og það er líka mjög matskennt hvernig það er metið. Það fer eftir því hvort fyrirtækin hafi staðið við opinber gjöld og annað.

Finnst þingmanninum þetta ekki vera undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að í 32. gr. laganna stendur að eftir 23 ár falli þessi lög úr gildi? Er verið að blanda Evrópusambandsumsókninni inn í þetta frumvarp þar sem enginn veit hvað tekur við eftir 23 ár þegar þessi lög falla úr gildi? Er smám saman verið að taka heimildirnar inn til ríkisins svo að hægt sé að renna íslenskum sjávarútvegi saman við sjávarútveg Evrópusambandsins?