139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir kröfu síðasta ræðumanns. Ítrekað hefur verið kallað eftir því að umræddir ráðherrar verði við þessa umræðu og þau sýna þinginu mikla vanvirðingu með því að hunsa þær beiðnir.

Mig langar að leggja áherslu á að nú fer hátíðisdagur sjómanna í hönd, sjómannadagurinn. Við höfum farið fram á að ekki verði fundað hér fram eftir kvöldi vegna þess að margir þingmenn vilja taka þátt í þeim hátíðarhöldum með sjómönnum, flotinn er kominn í land og sjómennirnir komnir til að fagna þessum degi.

Til að leggja áherslu á mál mitt langar mig að færa forseta merki slysavarnadeilda landsins sem lyft hafa grettistaki í slysavarnamálum sjómanna. Merkið verður selt um helgina í samvinnu við sjómannadagsráð. Mig langar einnig að biðja hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka við slíku merki og styðja okkur þingmenn í því að við fáum að fara og taka þátt í hátíðarhöldum með sjómönnum en þurfum ekki að eyða tímanum í kvöld í málalengingar um þetta mál.