139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að taka undir kröfur um að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fylgist með þessum umræðum og taki þátt í þeim og útskýri fyrir okkur hver stefna ríkisstjórnarinnar raunverulega er, hvað hún ætlar sér með þetta mál. Það á ekki hvað síst við um hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahagsráðherra vegna þess að fram hefur komið í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að menn ætli að halda áfram, eða hann fyrir sitt leyti, með þessa stefnu í megindráttum, sama hvað kemur út úr athugun á hagrænum áhrifum þessara tillagna. Við hljótum að gera kröfu til þess að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahagsráðherra útskýri hvað þeim þyki um þessa afstöðu.

Það færi vel á því að þessir ráðherrar fengju merki að gjöf frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, merki sjómannadagsins sem hann hefur verið að dreifa hér, og sýni með því að þeir hafi einhvern vilja til að standa með sjómönnum og þeim sem starfa í sjávarútvegi á Íslandi.