139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær kröfur sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti fram áðan, að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra komi til þessarar umræðu, sérstaklega í ljósi þess sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í andsvörum í morgun, að það væri stefnan að halda þessum megindráttum frumvarpsins fram hver sem niðurstaðan út úr efnahagslegri greiningu á frumvörpunum yrði. Ég tel mikilvægt að þeir taki þátt í þeirri umræðu.

Ég vil líka taka undir það að ekki sé æskilegt að vera með fund hér langt fram á kvöld þar sem margir hv. þingmenn hafa hugsað sér að taka þátt í hátíðarhöldum sjómanna og þurfa þess vegna að komast til þeirra vegna þess að þau hefjast á morgun.

Það er líka mjög mikilvægt að fram komi sú yfirlýsing sem hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á áðan að þetta verði ekki gert að lögum núna. Það kemur beinlínis fram í lögunum sem við ræðum að þau eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir rúmt ár, þau eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. september 2012. Ég tel tíma þingsins betur varið í að ræða þau mál sem þarf að klára fyrir þinglok og hætta þeirri umræðu sem nú stendur.