139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir um að það sé alveg skýlaus skilningur hans, og ég er algerlega sammála honum, hvað varðar strandveiðarnar sem verið er að stunda. Við þekkjum hvað gerðist í dagakerfinu. Fyrst vorum við með dagakerfi, svo vorum við með klukkutímakerfi. Þá kom þrýstingur um að ekki væri nokkur einasta leið að hafa það með þeim hætti og það yrði að úthluta kvótanum á bátana miðað við veiðireynsluna. Sú krafa kom nefnilega innan úr þeim geira, þ.e. það voru einstaklingarnir sjálfir sem börðust fyrir því, fengu síðan miklu meiri heimildir en þeir höfðu til viðmiðunar í þessum pottum og fengu síðan úthlutað varanlega og seldu það frá sér margir hverjir, ekki allir.

Ég fagna þessu sérstaklega, ég er alveg sammála hv. þingmanni. Á sínum tíma þegar þetta var gert var ég mjög ósáttur við það því að skoðun mín hefur alltaf verið sú að við þurfum að hafa einhvern aðgang til að komast inn í greinina, stunda skak og þar fram eftir götunum. En einhver skynsemi þarf að vera í hlutunum af því að þetta getur orðið óseðjandi fyrirbæri ef alltaf er haldið áfram að framleiða fleiri og fleiri báta. Það er því mjög mikilvægt að skilaboðin séu skýr.

Hv. þingmaður kom inn á ráðherraræðið í andsvari sínu. Ég fagna því að hann er sömu skoðunar og ég að það sé eitt af því sem verði að skoða í lagafrumvarpinu. Vegna þess að t.d. gagnvart þessum leigupotti sem á að verða þegar búið er að fylla upp í bæði strandveiðarnar og byggðapottana, það sem fer þá inn í svokallaðan leigupott, þá gerist það með þeim hætti að það er ráðherrann sem setur reglugerð um hverjir mega sækja um og hvernig úthlutað er til landshluta, útgerðarflokka og þar fram eftir götunum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, og hef sagt það oft áður að mér finnst núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra algerlega hafa misstigið sig í þessum efnum, t.d. með þeirri misskiptingu sem er á strandveiðunum. Til að mynda hafa Vestfirðingar miklu minni aðgang að strandveiðum en t.d. Norðlendingar. Vestfirðingar gátu veitt í fimm daga í síðasta mánuði á meðan 30% voru eftir af kvótanum fyrir Norðurland og ekkert samræmi á milli magns og leyfa á hvorugu svæðinu. Það er því mjög mikilvægt að þetta verði tekið til endurskoðunar og ég fagna að hv. þingmaður er sammála mér um það.