139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvers vegna leggur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra það til í frumvarpi þessu að lögin gildi ekki lengur en til ársins 2034? Hvers vegna er verið að setja sólarlagsákvæði í frumvarpið og binda þar með hendur Alþingis til framtíðar?

Gott og vel, það er álit hæstv. ráðherra að verið sé að tryggja hagsmuni Íslendinga með því að leggja þetta frumvarp fram. Mig langar til að vísa í umræðu í þinginu um lög um Stjórnarráð Íslands þar sem er lagt til að ráðuneytum verði fækkað og embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði hreinlega lagt niður og sameinað atvinnuvegaráðuneyti, en í frumvarpi þessu er sífellt minnst á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Er ráðherrann ekki hræddur um stöðu sína og að verið sé að knýja í gegn þetta frumvarp og þessi lög og ríkisstjórnin umbylti því síðan öllu á nýjan leik?