139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á líklega að líta á það sem heiður að hæstv. forsætisráðherra kemur í ræðustól og snuprar mig. Það sýnir að ég hef hitt á veikan blett í Stjórnarráðinu. (Forsrh.: Þetta er rangt mál …) Hæstv. forsætisráðherra talar um að þetta sé ekki að finna í frumvarpinu. Það kom í fréttum fyrir skömmu að frumvarpið hefði verið samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en greinargerðin í forsætisráðuneytinu. (Gripið fram í.) Þá voru ráðherrarnir ósamstiga, mig minnir að fréttin hafi birst í einum af hinum góðu samfylkingarmiðlum.

Ég er tilbúin hvenær sem er að ræða 20 ára fyrningarleið Framsóknarflokksins. Hún gengur út á það, hæstv. forsætisráðherra, að hér verði veittar veiðiheimildir til 20 ára með framlengingu á fimm ára fresti. Hér erum við ekki að leggja það til að ráðherravæða þau leyfi sem um er fjallað. Þetta á að fara fram eftir opinberum leikreglum til lengri tíma. Ég minni á að í frumvarpinu stendur að leyfi skuli „að hámarki vera til 15 ára“ í fyrsta sinn — það getur þess vegna verið eitt ár. Hvaða atvinnuvegur getur búið við svoleiðis lagað, vita ekki neitt fram í tímann öðruvísi en óttast um stöðuna?