139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt sem hv. þingmaður sagði. Það er mikill hvati fyrir fyrirtækin að taka upp öflugri hreinsibúnað sem er jákvætt fyrir okkur öll en þá skapast það svigrúm að þau geta farið með þetta á alheimsmarkað. Við skulum ekki gleyma því. Ríkisstjórnin hefur afhent okkar losunarkvóta sem var hluti af alheimsauðlind því þetta er eitthvað sem verið er að tala um hringinn í kringum jörðina. Þessu var ýtt út af borðinu og þetta kerfi tekið upp sem leiðir það af sér að einstök fyrirtæki geta selt kvóta sína fyrir gjaldeyri, við skulum ekki gleyma því. Það fóru þó bara íslenskir peningar á milli kvótakaupenda í sjávarútvegi þannig að ríkisstjórnin er að afleggja kvótakerfi í sjávarútvegi en er að taka upp nákvæmlega sama kerfi í sambandi við losunarheimildakerfið og ganga þar inn. Við getum líka rætt um að flugfélög þurfa að fara að kaupa sér kvóta. Og hvað verður um okkar eyju þá? (Forseti hringir.) Það er verið að ýta okkur út úr samfélagi þjóðanna (Forseti hringir.) því að þessir kvótar eiga eftir að verða svo dýrir í framtíðinni.