139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður átti sæti í undirnefnd, sex manna hópi, sem vann að málunum með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hún á að geta upplýst mig um það: Hvernig stendur á því að aðrar reglur gilda um fjórar fisktegundir sem fá aukafyrningu, eins og ég leyfi mér að kalla það, þ.e. þorsk, ýsu, ufsa og steinbít?

Núna er til að mynda ýsukvótinn 50 þús. tonn, var 100 þús. tonn fyrir rúmu ári, þ.e. tveimur fiskveiðiárum, og sú tala er fest við 50 þús. tonn þar sem þessi aukafyrning byrjar. Einföld spurning: Hvers vegna eru sérreglur um þessar fjórar fisktegundir sem ég tel að muni bitna harðast á minni og meðalstórum fyrirtækjum? Í öðru lagi: Hefur hv. þingmaður einhverjar áhyggjur af því að þá megi ekki lengur, samkvæmt frumvarpinu, leigja úr stóra kerfinu niður í litla kerfið?