139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haft miklar áhyggjur af því hve mikil samþjöppun hefur verið í útgerðinni, bæði í smábátaflotanum og í stóru útgerðinni. Ég held að það sé ekki gott fyrir sjávarútvegsþjóð sem býr dreift, í sjávarbyggðum vítt og breitt, að við getum ekki treyst því að þessar sjávarbyggðir geti skapað sér atvinnu af sjávarútvegi. Ég vil spyrja hv. þingmann á móti: Telur hann rétt að við þjöppum öllum þessum aflaheimildum saman? Við gætum þess vegna tekið allar aflaheimildir á Íslandsmiðum á átta stórum fullvinnsluskipum, frystitogurum. Ég vil sjá blandaða útgerð, bæði smábátaútgerð, milliflokka af útgerð og stærri útgerð, og ég held að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að hafa þetta sem blandaðast svo það geti veitt sem flestum atvinnu vítt og breitt um landið.