139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili ekki áhyggjum með hv. þingmanni um að afleiðingar þessa frumvarps verði til þess að fjöldi manns vítt og breitt um landið missi atvinnu. Ég deili ekki þeim áhyggjum. Ég tel að þetta frumvarp sé þannig úr garði gert að það tryggi þvert á móti fólki vítt og breitt um landið öryggi með nýtingarsamningum, sem aðrar atvinnugreinar búa því miður ekki við, að hafa ákveðið rekstraröryggi til 15 ára. Þess vegna segi ég: Við erum að treysta grundvöllinn fyrir sjávarútvegsfyrirtæki vítt og breitt um landið og þá er ekki verið að tala um eina gerð frekar en aðra. Með þessu frumvarpi erum við einmitt að tryggja stöðu þessara fyrirtækja til að þau geti gert langtímasamninga við kaupendur eða aðila erlendis. Ég held að þetta styrki fyrirtækin og þau geti fjölgað hjá sér starfsfólki.