139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að eitt af því sem þetta frumvarp byggði á væri skrifleg samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, en þar stendur m.a. að það sé afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma og jafnframt að íslenskur sjávarútvegur muni gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan sé.

Í ályktun Landssambands smábátaeigenda segir að ekkert samráð hafi verið haft við þá. Þetta geri rekstrarstöðuna erfiðari, það séu of stuttir nýtingarsamningar, það sé vegið í sama knérunn, það sé alltaf verið að taka aftur og aftur af því sama og fleira í þessum dúr. Það eru allir sammála um að frumvarpið sé ómögulegt. Samt kemur þingmaðurinn hér og segir að þetta sé varnarbarátta sjávarplássa sem eyði óvissu og breyti óréttlátu kerfi til að styrkja afkomu sjávarbyggða. Hvaða byggða? Og á kostnað hverra?