139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo í þessu lífi að það sem einhver hefur fengið til sín vill hann helst ekki láta frá sér. Sjávarauðlindin er sameign þjóðarinnar og með þessu frumvarpi erum við að mæta þeirri miklu kröfu í samfélaginu sem hefur verið til fjölda ára að gera breytingar á kvótakerfinu til jöfnunar, til að auka nýliðun og styrkja byggðirnar.

Menn verða að átta sig á því að það verður að gera með einhverjum hætti. Það hafa verið gerðar miklar tilfærslur í þessu kerfi með miklum afleiðingum og við erum að fara mjög milda leið, að gefa fleirum tækifæri til að hafa atvinnu í þessari grein og til að styrkja atvinnuöryggi byggðanna frá því sem nú er. (Gripið fram í.) Það erum við að gera og þjóðin stendur með okkur. Við vitum vel að það munu alltaf verða öfl sem berjast fyrir sínum sérhagsmunum en við hugsum um hag þjóðarinnar númer eitt, tvö og þrjú.